Wednesday, September 19, 2012

Cunningham: Critical Incidents in Professional Life and Learning

Meginumfjöllunarefni þessarar greinar er það sem á ensku kallast "critical indicents" og í orðræðu þessa námskeiðs hefur verið kallað "óvænt atvik." Sú þýðing finnst mér ekki alveg nógu góð og ætla hér að notast við "mikilvæg atvik" þó það nái kannski ekki alveg rétta tóninum heldur.



Höfundur tekur fram að þrennt þurfi að hafa í huga þegar rætt er um mikilvæg atvik. Tilhneiging sé til þess að hugsa um þau sem skýr og afmörkuð, öllum ljós og að þau verði eins konar vendipunktur í lífi og starfi kennarans, sem breytist strax og til frambúðar í kjölfarið. Dæmi um slíkt væri ef dönskukennari uppgötvaði eftir tíu ára starf að hann hefði allan tímann verið að kenna dönsku án þess að hafa fölsku tennurnar uppi í sér. Þá kviknaði á perunni, kennarinn gerði sér grein fyrir því að svona væri vonlaust að kenna dönsku, setti upp í sig fölsku tennurnar og árangur nemenda stórbatnaði samstundis.

En í raun og veru er þetta ekki svona einfalt, segir höfundur. Í fyrsta lagi þarf að hafa í huga að mikilvægt atvik getur verið mikilvægt í augum þess eins sem í því lendir. Söguhetjunni kann að finnast atvikið veita sér nýja sýn á starf sitt á meðan vinnufélagarnir láta sér fátt um finnast. Í öðru lagi má vel vera að það taki nokkurn tíma að kvikna á ljósaperunni, þ.e.a.s. að söguhetjan þurfi að ígrunda og hugleiða atvikið um tíma áður en hún skilgreinir það sem mikilvægt. Í þriðja lagi getur atvikið líka verið röð atvika, eins konar atburðarás, átt sér forsögu og aðdraganda.

Sjálfur hef ég upplifað allmörg mikilvæg atvik í starfi mínu sem leiðbeinandi, kennari og loks deildarstjóri og hef auðvitað verið að rifja mörg þeirra upp og hugleiða i tengslum við komandi verkefni í þessu námskeiði. Þau sem ég hef haft í huga í því sambandi snúa þá öll að samskiptum mínum við nemendur og hvernig ég hef smám saman náð að mynda mér eigin stíl í þeim efnum, heflað burt stærstu vankantana án þess að tapa kjarnanum og hætta að vera ég sjálfur. Það vakti mig því til nýrrar umhugsunar þegar ég las í grein Cunninghams um mikilvæg atvik í samhengi við stöðuhækkanir og -lækkanir en slíkt hef ég nýverið upplifað á mínum starfsferli án þess að tengja það við starfsímynd mína á sama hátt og öll atvikin þegar ég gerði mistök í kennslustofunni. En vissulega er það rétt og augljóst að hingað er ég kominn, í þetta framhaldsnám, einmitt vegna þess að í lífi mínu varð mikilvægt atvik. Ég eignaðist sem sagt son í ársbyrjun og stóð í þeim sporum þegar snjóa fór að leysa að erfitt var að skipuleggja næsta skólaár í því starfi sem ég var kominn í - sem sagt deildarstjóri í Norðlingaskóla. Ég sá fram á að hluti ársins færi í feðraorlof og vegna óvissu um daggæslumál gat ég ekki lofað mér í fullt starf þann tíma sem ég þó yrði tiltækur. Slíkur stjórnandi nýtist ekki vel og það blasti við að líklegast fengi ég ekki áframhaldandi ráðningu nema sem óbreyttur kennari. Út af fyrir sig hefði það ekki verið neitt óskaplega slæmt, því kennsla við Norðlingaskóla er með því mest spennandi sem ég hef kynnst í lífinu. Ég skynjaði hins vegar að ég þyrfti að hugsa málið betur, lagðist undir feld og tók þá ákvörðun með mjög skömmum fyrirvara (þótt undiraldan hefði þar verið að krauma í allnokkurn tíma) að yfirgefa vinnustaðinn og leita mér aukinnar menntunar. Þannig tel ég að út úr tvísýnri og erfiðri stöðu hafi orðið niðurstaða sem mun verða til að mér vaxi ásmegin í starfi til lengri tíma litið.

Það er nefnilega ekki sjálfgefið að mikilvæg atvik auki veg manna í starfi. Til þess að svo megi verða er nauðsynleg forsenda að maður sé í stakk búinn og viljugur að láta atvikið hafa jákvæðar afleiðingar. Að nafninu til eiga allir kennarar að stunda símenntun og bjóðast þeim ýmis tækifæri til að uppfylla þær kröfur með formlegum hætti. Það er hins vegar erfiðara að henda reiður á því sem kennari lærir í sínu daglega amstri en ég hef lengi haft það fyrir satt að af mistökunum læri maður mest. Til þess þarf maður að vera tilbúinn til að greina mistökin á heiðarlegan hátt, kryfja þau og ígrunda, skilgreina hvaða lærdóm má draga af þeim og hrinda aðgerðum í framkvæmd sem verða til þess að sá lærdómur gagnist manni og hafi áhrif. Í grein sinni fjallar Cunningham um ýmis praktísk atriði sem geta hindrað að mikilvæg atvik verði til góðs, en ég tel sjálfur mun mikilvægari forsendu að sá sem í því lendir hafi getu og þor til að axla ábyrgð, sýna auðmýkt og læra af mistökum sínum.

No comments:

Post a Comment