Wednesday, September 26, 2012

Hafdís Ingvarsdóttir: Mótun starfskenninga íslenskra framhaldsskólakennara

Það er eiginlega dálítið erfitt að verða ekki pínu hnugginn við lestur þessarar greinar eftir Hafdísi.

Niðurstöður rannsóknar hennar benda til þess að víða vanti upp á að kennarar fái það sem þeir þurfa til þess að vaxa og dafna í starfi.

Starfskenning kennarans, eins og Hafdís skilgreinir hana, er síbreytilegt og lifandi fyrirbæri, eins konar iðandi persnesk motta úr mislitum þráðum sem sífellt vefur sjálfa sig upp á nýtt. Meginþræðirnir eiga að vera þrír og gætu kallast etík, teoría og praxís. Þessir þræðir ættu að eiga í samræðu allan feril kennarans, þar sem einstakt samband við nemendur ásamt djúpstæðri væntumþykju til námsgreinarinnar mynda hinn siðferðislega botn, samskipti við kollega og fagleg umræða á vinnustaðnum næra reynsluheiminn en símenntun og móttaka kennaranema viðhalda tengingunni við fræðin.

Því miður virðist þetta víða vera með öðrum hætti. Kennarar eru einangraðir, tala sjaldan saman og enn sjaldnar um kennsluna. Kennaramenntunin skilur að því er virðist lítið eftir sig, allavega ekki til lengri tíma litið.

Það jákvæða er hins vegar að mikilvægasti þátturinn í kennarastarfinu - nemendur - er þátturinn sem hefur mestu áhrifin. En sá þáttur einn og sér dugir varla til. Ef kennari á að halda áfram að læra allan sinn starfsferil þarf ýmislegt að breytast, eins og Hafdís bendir á.

Ég er frekar heppinn náungi. Þessi einangrun og skortur á faglegri samræðu sem kemur fram í niðurstöðum Hafdísar eru hlutir sem ég kannast ekki við úr mínu starfi. Síðastliðin fimm ár hef ég verið hluti af kennarateymi þar sem fagleg samræða er fastur liður í hverri einustu vinnuviku og innan við helmingur kennslu minnar fer þannig fram að enginn annar kennari er í sama vinnurými. Aldrei nokkurn tímann er annar kennari ekki að minnsta kosti í kallfæri. Ég hef því lært ótalmargt á þessum fimm árum í starfi og vaxið gríðarlega sem fagmaður og manneskja.

Einmitt í því samhengi tók ég mig til og gróf upp lokakaflann í ferilmöppunni minni úr kennsluréttindanámi veturinn 2006-7 (þegar allt lék í lyndi á Íslandi). Ég byrjaði á því að lesa textann, sem ritaður var undir yfirskriftinni "starfskenning mín" á vordögum 2007. Því næst setti ég textann inn á ferilmappa.blogspot.com en þar hyggst ég smíða ferilmöppuna mína í því námskeiði sem hér er til umræðu sex árum síðar. Næsta skref verður svo að rýna í textann og draga fram hvað hefur breyst, hvar ég var á villigötum og hvað á enn við (ef eitthvað er). Af nógu er að taka og ég hlakka til að afbyggja þetta gamla plagg.

Ég hef sterklega á tilfinningunni að hefði ég ekki verið svo heppinn að fá starfið sem mér bauðst strax að loknu réttindanámi væri töluvert styttra bil á milli þess sem ég setti fram í þessu uppkasti að starfskenningu um árið og þess hverjum augum ég liti sjálfan mig í starfi nú sex árum síðar.

Þetta sýnir mér það, að kennarastéttin þarf að rjúfa einangrun sína. Ég er ekki sannfærður um að tillaga Hafdísar um lengingu kennaranáms og breytta símenntun sé lausnin, þótt auðvitað yrði slíkt til góðs. Það sem ég held að þurfi frekar er að kennarar finni sér leiðir til að tala saman um starf sitt. Kennarar geta farið fram á það við skólastjórnendur sína að tekin verði upp aukin teymisvinna. Þeir geta nýtt sér upplýsingatækni til samskipta út fyrir sinn vinnustað. Ég bendi á facebook-hóp FEKÍ sem dæmi, auk þess sem hver og einn kennari getur lagt sitt af mörkum til að fagleg umræða verði öðrum aðgengileg. Hér skrifa ég lestrardagbók mína á netið, þar sem kennarastéttin öll, já íslenska þjóðin, getur lesið. Þegar Google Translate verður ögn betri mun öll heimsbyggðin geta lesið þetta sem ég er að skrifa. Þetta mættu fleiri gera og það þarf að vinna bug á því séríslenska viðhorfi að menn eigi ekki að trana sér fram, hver eigi að hugsa um sig og að það sé nú alveg óvíst að nokkur annar geti haft gagn af því sem maður er að gera, hugsa og skrifa.

No comments:

Post a Comment