Thursday, October 4, 2012

Cate Watson: Narratives of practice and the construction of identity in teaching

Eitt samheitanna yfir starfskenningu er fagvitund, sem snýr að mínu mati meira að innri upplifun kennarans af starfi sínu. Starfskenning finnst mér vera staðsett nær hinu teóretíska, en það er bara minn málskilningur. Í þessari grein frá 2006 er fjallað um hugtakið "professional identity" og er það minn skilningur að þá séum við farin að nálgast eitthvað sem mætti kalla "faglega sjálfsmynd" og stendur enn innar í sálarlífinu. Í greininni er greint frá eigindlegri rannsókn þar sem eini viðmælandinn var skoskur kennari, hokinn af reynslu, sem tekið var alinlangt viðtal við þar sem hann lýsti sjálfum sér sem kennara. Í túlkun höfundar er svo rýnt í hvernig kennarinn smíðar sína eigin "faglegu sjálfsmynd" í gegnum samskipti sín við nemendur og samstarfsfólk, en ekki síður hvernig hann rammar síðan myndina inn í eigin frásagnarlist.

Efnið er mér hugleikið bæði í tengslum við verkefnið okkar um örlagaríkt atvik, en ekki síður vegna þess að bakgrunnur minn áður en ég kom inn í kennarastéttina var í leikhúsi. Það er margt líkt með kennslu og leiklist - að minnsta kosti ef við horfum á hefðbundna bekkjarkennslu þar sem kennarinn stendur fyrir framan hóp áhorfenda og "performerar" - en þessi störf eru einnig í grundvallaratriðum ólík. Kennarinn notar sína eigin persónu sem efnivið í sinn "performans" í mun meira mæli en leikarinn og samskipti hans við áhorfendahópinn eru (vonandi) mun gagnvirkari. Þá eiga samskipti kennara við nemendur sér stað á lengri tíma og verður því "identity" kennarans smám saman til í samskiptunum, á meðan "identity" leikpersónunnar er mynd sem hann varpar fram um stund en felur sitt eigið "identity" á bak við það á meðan.

Þessar svifkenndu pælingar mínar eru komnar í mun skýrara samhengi eftir lestur greinarinnar og ég hef trú á því að ég hafi tekið fyrstu skrefin í átt að því að skoða þetta svið mun nánar. Kennari er aldrei "bara hann sjálfur" heldur er hann ávallt í einhvers konar hlutverki. Hann sýnir eflaust mismunandi framkomu við nemendur, samstarfsfólk, foreldra og skólastjóra. Sama getur átt við um mismunandi nemendahópa, starfsmannahópa og það hvort samskiptin eiga sér stað í kennslustofunni, á kennarastofu, í matsal, eða í sumarbústað skólastjórans. Ég hefði gaman af því að skoða nánar hvaða áhrifaþættir eru að verki þegar þessar mismunandi birtingarmyndir persónu kennarans verða til.

No comments:

Post a Comment