Wednesday, November 7, 2012

Jeffrey J Rozelle og Suzanne M Wilson: Opening the black box of field experience: How cooperating teachers' beliefs and practices shape student teachers' beliefs and practices

Lenging kennaranáms á Íslandi hefur kveikt vonir í brjóstum þeirra sem áhuga hafa á vettvangsnámi. Ef námið verður fimm ár, segja margir, hlýtur það að leiða til þess að vettvangsnám kennaranema skili auknum árangri. Hugmyndir um að nýta eitt af viðbættu árunum svo að segja eingöngu í vettvangsnám hafa komið fram, til dæmis hjá þessum spekingi og við fyrstu sýn virðist þetta liggja í augum uppi. Það þykir að minnsta kosti víða þar sem ég hef komið borðleggjandi staðreynd að hér á landi sé vettvangsnám kennara of lítið, of stutt, of ómarkvisst og jafnvel lélegt.

Í inngangi að grein þeirri sem hér er fjallað um reifa höfundar þá þversögn að þrátt fyrir að vettvangsnám sé óumdeildur lykilhluti af kennaranámi um allan heim hafi furðu lítill fræðilegur skilningur myndast á því sem þar fer fram. Í því skyni að bæta úr þessum skorti rannsökuðu þau nokkra kennaranema sem einmitt gengu í gegnum það sem í umræðunni hér á landi hefur verið kallað kandídatsár. Niðurstöður þeirra valda mér nokkrum heilabrotum um hvort nokkuð sé á slíku ári að græða.

Fram kemur í greininni að kennaranemarnir sem fylgst var með féllu allir í þá gryfju að taka upp kennsluaðferðir, kennsluáætlanir, jafnvel frasa, brandara og látbragð leiðsagnarkennara sinna. Þegar leið á kandídatsárið var hægt að deila nemunum í tvo hópa: annars vegar þá sem heppnaðist að fella kennslustíl leiðsagnarkennarans að sjálfum sér og urðu nokkuð farsælir (en ekki sérlega sjálfstæðir) kandídatar, hins vegar þá sem tókst það ekki en héldu áfram að rembast eins og rjúpan við staurinn og virðist ekki hafa hvarflað að neinum þeirra að reyna að finna sinn eigin kennslustíl.

Kennaranám virðist víða byggja á þeirri hugmyndafræði að með því að innræta verðandi kennurum ofurtrú á nútímalegum kennsluháttum og móta viðhorf þeirra og starfskenningar meðan þeir sitja á skólabekk verði afleiðingin sú að viðhorfin muni brjótast upp á yfirborðið þegar kennarinn hefur störf og stýra því hvers konar kennari þetta verður. Raunveruleikinn virðist vera annar, jafnvel gæti þessu verið þveröfugt farið. Víða koma kennarar til starfa uppfullir af ferskum hugmyndum, djúíogvígotskíaðir í botn svo að lekur út úr eyrunum á þeim hugsmíðahyggjan. Svo fá þeir stimpilkort og lykil að skólastofu og innan skamms hafa þeir breyst í forpokaða, gamaldags og það sem verst er, valdsmannslega kennara.

Hafa ber í huga að í tilvikinu sem rannsakað var áttu kennaranemarnir hver sinn leiðsagnarkennara - einn á mann - og líklegt er að með því að hafa meiri breidd í áhrifavöldunum mætti draga úr áhrifunum, þótt kannski mætti segja að kennaranemi sem hermir eftir tíu kennurum sé lítið skárri en sá sem hermir eftir einum, því hvorugur er að gera það sem á að gera, þ.e. að vinna út frá sjálfum sér. Ég er mikill talsmaður teymisvinnu í skólastarfi og það væri allt of langt mál að fara lengra út í þær pælingar hér.

En hvað segir þetta okkur um kandídatsárið? Er það ekki dautt, miðað við þessar niðurstöður? Að mínu mati þarf svo ekki að vera, en það á sér aðeins von ef til staðar verður fúnkerandi samfélag leiðsagnarkennara (með fúnkerandi samvinnu móttökuskóla og kennaramenntastofnana) sem hefur þekkingu, getu, áhuga og meðvitund til að sjá til þess að kennaranemar falli ekki í þá gryfju sem höfundar lýsa í greininni. Vonandi verður slíkt samfélag einhvern tímann til og með tilkomu námsleiðar í leiðsagnarkennslu gæti myndast vísir að því.

Það er að segja ef nemar sem útskrifast af slíkri námsleið detta ekki ofan í sömu hjólför og nýútskrifaðir kennarar þegar raunveruleikinn knýr að dyrum.

No comments:

Post a Comment