Friday, November 23, 2012

Fyrsta ár í kennslu: Reynsla framhaldsskólakennara. Hafdís Ingvarsdóttir (2009)

Í mínum gamla karríer sem leikstjóri hafði ég lengi þann vana að láta leikara ganga í gegnum eldskírn sem ég kallaði "sundkennararennslið." Það átti sér stað seint á æfingatímabilinu, um það bil viku fyrir frumsýningu, þegar heildræn mynd var farin að koma á verkið og æfingar oftast svokölluð "rennsli" sem þýðir að leikritið er æft í heild sinni frá upphafi til enda. Þetta með sundkennarann snerist um að á þessu rennsli fengu leikarar ekki að hafa handrit né hvíslara sér til halds og trausts heldur þurftu að reiða sig á sjálfa sig og hvern annan. Ég líkti þessu við sundkennara sem stendur á bakkanum og hendir börnunum út í laugina hverju á fætur öðru og fylgist svo með því hverjir fljóta og hverjir sökkva.

Svo virðist sem svipuð venja sé uppi í skólakerfum víða um heim. Hafdís segir hér frá rannsókn sem sýnir að svo virðst sem skipulagðar verklagsreglur um móttöku nýliða og aðstoð við þá fyrsta starfsárið séu afar fátíðar hér á landi. Hafdís vísar einnig í erlendar rannsóknir sem benda til þess að útlendingar séu ekkert skárri.

Viðmælendur í rannsókninni kalla í raun eftir því að komið sé á skilvirku og samræmdu kerfi um þessa hluti. Nýliðar eigi að hafa aðgang að leiðsagnarkennara (þeir hafa víst rétt á því samkvæmt kjarasamningum en hvort því er alls staðar framfylgt er óvíst), þeir eigi að kenna minna (sama gildir hér) og skólastjórnendur þurfi að sinna leiðsagnarhlutverki sínu betur.

Á mínum vinnustað er vilji til þess að gera þessa hluti vel. Það er kannski ekki að undra þar sem um ört vaxandi skóla er að ræða og stundum hefur hátt í helmingur kennara að hausti verið nýliðar. Skólastýran má eiga það að hún leggur sig mikið fram við að innræta nýliðum (og eldri kennurum reyndar líka) sýn og stefnu skólans. Á pappírnum er það einnig ætlan skólans að allir nýir kennarar (hvort sem um er að ræða nýútskrifaða eða reynda kennara sem koma nýir inn á þennan vinnustað) fái svokallaðan móttökustjóra sem sé þeirra tengiliður og ráðgjafi fyrsta árið. Hins vegar er það því miður þannig að um hlutverk móttökustjórans og verksvið hefur ekki svo mikið sem stafkrókur verið settur á blað, hvað þá að gert sé ráð fyrir því að hann hafi tíma til að sinna skyldum sínum við nýliðann. Þetta ætla ég að laga.

Er það samt í mínum verkahring? Fram kemur hjá Hafdísi að starfshópur á vegum menntamálaráðuneytisins hafi skilað skýrslu í mars 2006, þar sem lagt er til að skikki verði komið á málefni nýliða í kennslu.

Mars 2006. Þá voru Brasilíumenn ennþá heimsmeistarar í fótbolta, atvikið fræga þegar Zidane skallaði Materrazzi var óskeð og uppgangur Spánverja fjarlægur draumur. George W. Bush var forseti Bandaríkjanna og fermetraverðið í Reykjavík var ennþá um 250 þúsund krónur.

Hafdís gerir rannsókn sína þremur árum síðar. Í grein hennar birtast orð og orðasambönd á borð við: "undir hælinn lagt", "fyrirkomulag misjafnt", "ábótavant" og "skipulagið brotakennt, samræmingu vantar." Viðtal sem ég tók við reyndan leiðsagnarkennara nú í haust leiddi í ljós að enn hefur ekki verið lagt í þá vinnu að hanna fúnkerandi kerfi fyrir nýráðna kennara á Íslandi. Það er eins og enginn viti hver beri ábyrgð á því að taka af skarið. Er það ráðherra? Háskólinn? Skólakerfið? Kennarasambandið?

Á meðan er pattstaða og við bíðum eftir Godot.

No comments:

Post a Comment