Wednesday, November 7, 2012

Nokes og félagar: The paired-placement of student teachers: An alternative to traditional placements in secondary schools

Hér er sagt frá rannsókn á gagnsemi þess að kennaranemar vinni saman tveir og tveir. Í stuttu máli er niðurstaðan sú að svo sé. Kennaranemarnir töldu sig græða mikið á samræðum, skoðanaskiptum, átökum og ígrundun sem samstarf við annan nema hafði í för með sér. Misjafnt var hversu mikið samstarfið var og bentu niðurstöður til þess að kennaranámið væri því árangursríkara sem samstarfið væri meira.

Í inngangi er vísað til heimilda sem styðja þessar niðurstöður, þar sem fram kemur að fagleg samræða styrki nám kennara, að félagamat leiði til faglegrar þróunar og að teymiskennsla sé gagnleg bæði varðandi starfsþróun og til að draga úr einangrun kennara.

Og ég les þetta og segi svona stundarhátt við sjálfan mig: "Döööö!!!"

Ég er nefnilega svo heppinn. Ég hef frá árinu 2007 starfað við skóla þar sem teymisvinna starfsfólks er einn af hornsteinum skólasýnarinnar. Á þessum árum hef ég lært gríðarlega margt um sjálfan mig, um kennslu og um teymisvinnu. Þannig að það sem fram kemur í þessari ágætu rannsókn eru engar fréttir í mín eyru.

Teymiskennsla leysir ýmsan vanda þegar vel tekst til. Kennarar læra hver af öðrum, þeir eru sífellt og stöðugt í faglegri samræðu, hvetja hver annan og vekja til umhugsunar. Maður vandar sig meira í vinnunni ef maður getur ekki lokað sig inni þar sem enginn fullorðinn sér til. Svo er af þessu gríðarlegur félagslegur og tilfinningalegur stuðningur sem ekki skyldi vanmetinn og er einmitt komið inn á í greininni.

En góð teymisvinna kemur ekki af sjálfu sér. Það er ekki nóg að segja við hóp fólks: "Nú eruð þið teymi, verðið frábær!" Ég hef reynt það á eigin skinni að röng samsetning teymis getur haft afdrifaríkar afleiðingar og jafnvel þegar teymið er vel sett saman er það krefjandi verkefni að fá það til að virka. Teymisvinna ein og sér er engin töfralausn. Og teymisvinna er ekki sú sama í öllum skólum. Ég hef sjálfur talað við kennara sem segist vinna í teymi og þegar ég spyr um helstu kosti þess þá eru þeir tímasparnaður þegar senda á heimavinnuáætlanirnar í Mentor á föstudögum.

Er þá teymis- eða paravinna æskileg hjá óreyndum kennaranemum, eins og höfundar greinarinnar virðast halda fram? Já, ef vel er haldið á spöðunum, tel ég. Þeir kostir sem greint er frá eru ótvírætt eftirsóknarverðir en til þess að kennaranemar njóti góðs af þá þarf öflugt utanumhald og góð samskipti milli kennaramenntastofnana, móttökuskóla, leiðsagnarkennara, einstakra háskólakennara og kennaranemanna sjálfra. Og þá á eftir að skoða hvað í þessu felst fyrir nemendur, sem er mikilvægast af öllu (í greininni kemur reyndar fram að nemendur töldu sig njóta góðs af pöruninni).

Sem kennaranemi fyrir nokkrum árum átti ég einmitt samstarf við annan nema - að minnsta kosti upp að vissu marki. Sú reynsla var gagnleg, en ég tel að þáttur leiðsagnarkennarans hafi þar verið veigamikill, sem er ekki sjálfgefið. Samstarfið var að vísu takmarkað við sameiginlegan undirbúning og gagnkvæmt áhorf og hefði getað verið miklu, miklu meira. Það hefði þó ekki verið einfalt í framkvæmd fyrir hvaða leiðsagnarkennara sem er.

Í starfi mínu síðan hefur það komið fyrir að til mín eru send teymi kennaranema. Þá hugsa ég með mér: "Frábært, þau munu hafa gott af þessu, greyin." Sú hefur að vissu leyti orðið raunin, en oftast hefur samstarfið verið lagt upp þannig af þeim háskólakennara sem sendir nemana, að þeir eigi að hafa samstarf um undirbúning kennslu, útfærslu verkefna og framkvæmd, en ekkert hefur verið minnst á faglega samræðu, gagnkvæma rýni eða ígrundun. Þar hef ég eitthvað reynt af veikum mætti að hjálpa til en sé að nauðsynlegt er - ef samvinna kennaranema á að nýtast þeim eins vel og hægt er - að hafa kröfur um slíkt margfalt skýrari.

No comments:

Post a Comment