Wednesday, November 21, 2012

"Ofsalega erfitt og rosalega gaman": Reynsla nýbrautskráðra kennara - aukin vinnugleði. María Steingrímsdóttir (2007)

Ætli það sé tilviljun að skólaárið tekur jafndjúpa dýfu og sálarlíf manns með skammdegisþunglyndi? Sjá hér um það og ef menn vilja kafa dýpra má velta því fyrir sér hvort þetta sé skýring þess að okkur fer öllum að líða betur í jólafríinu.

Þarf þetta að vera svona? Er ekki hægt að gera eitthvað svo vesalings fólkinu sem kemur út á vinnumarkaðinn eftir kennaranám líði aðeins betur?

María hefur skoðað upplifun fáeinna Íslendinga af sínu fyrsta ári í starfi sem kennari og komist að því að sú upplifun er eins og við var að búast, hafi menn lagt það á sig að skoða rannsóknir á sama fyrirbæri frá "þeim löndum sem við berum okkur saman við" svo maður tali nú eins og embættis- eða stjórnmálamaður.

Þessi upplifun er langt frá því að vera ánægjuleg, þótt ummælin sem vísað er til í fyrirsögninni gefi annað í skyn. Ég gekk Fimmvörðuháls í sumar. Daginn eftir var ég kominn á þá skoðun að það hafi verið gaman að takast á við brekkurnar en í þeirri erfiðustu gafst ég einu sinni upp og grét eins og smákrakki sitjandi á rassgatinu þangað til öskufokið neyddi mig til að standa upp aftur og halda áfram. Ég hefði gjarnan viljað sleppa við þá lífsreynslu og finnst hún hvorki hafa gert mig að betri fjallgöngumanni né manneskju.

Við lestur greinarinnar heyrði ég aðvörunarbjöllur hringja með reglulegu millibili. Ég spyr sjálfan mig: Fyrst vitað er að kennaranám á svona langt í land með að búa nema undir starfið með fullnægjandi hætti, af hverju í ósköpunum er þá ekki brugðist við því?

Það skal tekið skýrt fram að hér er ekki um nýja vitneskju að ræða. Í þessari grein er vitnað í kerlingarálftina hana móður mína og sú tilvitnun er síðan árið sem ég fékk bílpróf.

Því má bæta hér við að ég hef í haust víða heyrt raddir þess efnis að stjórnendanámið, sem ég er að hamast við þessa dagana, búi stjórnendur ekki heldur undir sitt starf. Það ku ekki heldur vera nýjasta nýtt í fræðunum. Samt hefur enginn í silkihúfuklíkunni í Stakkahlíð ákveðið að taka að sér það verkefni að fylla í götin. Sennilega finnst þeim óinteressant að kenna þá hluti sem stéttin kallar eftir.

Hjá Maríu kemur fram að helmingur viðmælenda hennar íhugaði alvarlega að finna sér aðra vinnu um þetta leyti árs þegar þau voru að læra á kennarastarfið. Það var þriggja ára nám þá og við skulum virkilega vona að með lengingu námsins verði sú breyting að meira en helmingur þeirra starfskrafta sem við bjóðum börnunum okkar upp á reynist starfi sínu vaxinn.

En hvernig stendur á því að fólk bugast? Jú, sjáum til.

Kennaramenntastofnanir þessa lands gera sitt besta, skulum við vona. En þær gera einnig ráð fyrir því - í samræmi við það sem lesa má í fræðum - að skólar landsins sinni þeirri skyldu sinni að hjálpa nýliðum að tileinka sér starfið.

Einhverra hluta vegna er enn gert ráð fyrir því, þrátt fyrir að reynslan, sagan og dæmin sýni annað. Jú, vissulega eru sumir nýir kennarar heppnir, fá góðan leiðsagnaraðila eða detta inn í starfhæft teymi sem hjálpar þeim í erfiðustu sköflunum. En það er happdrætti. Það er langt frá því að í íslenska skólakerfinu sé til staðar kerfi sem virkar á þann hátt að nýjum starfsmönnum sé hjálpað, eins og tíðkast í öðrum fagstéttum.

Ég tel að það sé í verkahring kennaramenntastofnana að bregðast við þessu. Reynsla mín af viðtöku kennaranema segir mér að mikið vanti upp á að vettvangsnám búi nema undir starfið með fullnægjandi hætti. Það snýst einungis um kennsluhlið starfsins, en María bendir hér réttilega á að kennslan sem slík er aðeins einn hluti starfsins og nýliðarnir sem hún ræddi við voru á einu máli um að það væri alls ekki sá hluti starfsins sem mestur tími þeirra færi í. Þetta þarf að laga. Það þarf að breyta því að látið sé nægja að í bréfi til móttökuskóla séu óljós tilmæli um að gott væri að nemarnir fengju að "kynnast sem flestum hliðum kennarastarfsins." Þetta er ekki nógu gott! Það þarf að skilgreina þessar hliðar starfsins, ákveða hverjum þeirra er mikilvægast að kennaranemar kynnist og smíða markmið og leiðir.

Það getur ekki verið að það sé kennarastéttinni né skjólstæðingum hennar til góðs að kennaranemar séu fylltir af háleitum hugsjónum um kennslu sem eru í fullkomnu ósamræmi við þann veruleika sem mætir þeim þegar á hólminn er komið. Það stakk mig í hjartað að lesa um verkefni sem nemarnir höfðu búið til í námi og ætlað að nota í kennslu en lágu óbætt hjá garði ofan í skúffu að vori. Eins fannst mér sárt að lesa um nema sem þó voru meðvitaðir um kröfur til þeirra um að sinna hverjum og einum nemanda á sínum forsendum en sögðust svo "lenda í því" að skipuleggja kennslu sína út frá öllum hópnum.

Hvort var það Árni Johnsen eða Baldur Guðlaugsson sem sagðist hafa "lent í því" að fremja lögbrot?

No comments:

Post a Comment